Markmiðið að koma fólki út úr skuldafangelsi

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður félags- og tryggingamálanefndar Alþingis, segir mikilvægt að koma í veg fyrir að fólk lendi með eignir sínar á nauðungasölu án þess að því hafi verið boðin aðstoð til að leysa úr þeirra vanda.

„Markmiðið er að koma í veg fyrir sem flest uppboð og að fólk fái aðstoð, eins og með greiðsluaðlögun, til að komast út úr skuldafangelsi,“segir Sigríður í samtali við mbl.is.

Félags- og tryggingamálanefnd fundaði með fulltrúum Íbúðalánasjóðs í morgun, en nefndin hefur óskað eftir upplýsingum um fyrirhugaðar nauðungasölur. Rætt var um með hvaða hætti hægt væri að tryggja að einstaklingar í skuldavanda bjóðist aðstoð.

Sigríður bendir á að Íbúðalánasjóður er ekki með neinar útburðarbeiðnir. „Þannig að ef eignir fara á uppboð þá gefst fólki kostur á að leigja eignina áfram eða hefur tíma til að finna nýtt húsnæði fyrir fjölskyldu sína.“

Mikilvægt sé að allir stefni í sömu átt og að stjórnvöld hafi allar nauðsynlegar upplýsingar er varða þeirra aðkomu að skuldavandaúrræðum einstaklinga til að tryggja að fólk fái úrræði og njóti húsnæðisöryggis. Enginn eigi að lenda á götunni. 

Þá segir Sigríður að nefndin sé byrjuð að vinna að gerð frumvarps um breytingar á lögum um greiðsluaðlögun. „Við erum líka að fá upplýsingar sem við ræðum síðan við ráðherra í viðeigandi málaflokkum. Við erum að taka á móti upplýsingum og nota upplýsingarnar.“

Nefndin mun funda með stjórn Íbúðalánasjóðs nk. þriðjudag. Þá mun hún einnig funda með fulltrúum tollstjóra og skattstjóra auk þess sem rætt verður við fulltrúa þeirra sveitarfélaga þar sem vandinn er mestur. Rædd verða þau úrræði sem sveitarfélögin búa yfir til að tryggja húsnæðisöryggi íbúa og hvernig ríkið geti komið að því.

Þá fundaði nefndin með fulltrúum bankanna í síðustu viku. Nk. föstudag munu þeir kynna fyrir nefndinni stöðumat. Sigríður segir að bankarnir hafi verið brýndir á því að sýna samfélagsábyrgð og frumkvæði í þeim tilgangi að þróa sín úrræði og vinna með stjórnvöldum að að gera sértæka skuldaaðlögun að því úrræði sem því hafi verið ætlað að vera. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert