Óttast að missa fólk úr landi

Bergdís Saga Gunnarsdóttir.
Bergdís Saga Gunnarsdóttir.

„Fólki líður illa. Þetta er mikið óvissustand og óvissan, hún er alltaf slæm. Eðlilega er fólk að velta fyrir sér uppsögnum. Það er óvissa um framtíðina,“ segir Bergdís Saga Gunnarsdóttir, trúnaðarmaður hjúkrunarfræðinga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, um fyrirhugaðan niðurskurð. 

Bergdís Saga er hjúkrunarfræðingur á lyf- og handlæknisdeild HSU og jafnframt trúnaðarmaður hjúkrunarfræðinga á því sviði.

„Eins er óvissa um skjólstæðingana sem hafa treyst á okkur í gegnum árin. Þeir munu þurfa að treysta á aðstandendur og reiða sig á sjúkrabíla til flutnings til Reykjavíkur. Það er líka það sem fólk er mikið að ræða um. Það er bæði starfsóöryggið og allt sem því fylgir og eins hvað verður um skjólstæðingana.“

Seigla í starfsfólkinu

- Hvernig er reynt að aðstoða starfsfólkið?

„Við reynum að þétta raðirnar. Það hafa verið haldnir fundir. Bæði hafa sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar hist og talað saman og svo allur hópurinn. Stjórnendur stofnunarinnar hafa boðið fólki að fá aukna þjónustu utan frá ef fólk vill ræða málin. Það er náttúrulega seigla í fólkinu. Það stappar stálinu í hvert annað og klappar hvort öðru á bakið. Allir reyna að vera jákvæðir þrátt fyrir mótlætið eins og Íslendingar er háttur.“

Líta til Noregs

- Óttastu að missa fólk úr sveitarfélaginu?

„Já, að sjálfsögðu. Fólk hugsar til útlanda, Noregs og fleiri staða. Það er það sorglega við þetta, að missa allt þetta góða fólk út fyrir landsteinanna. Það er alveg ömurleg staða.“

- Þannig að þú telur að fólk muni ekki reyna að bíða niðurskurðinn af sér heldur að það telji sig verða að geta sem fyrst aflað tekna annars staðar?

„Ég held að fólk sé farið að horfa í kringum í sig. Fólk vonar það besta og að menn sjái að sér og átti sig á því hversu miklvæg stofnunin er fyrir sunnlendinga. Ef af þessum hryllilega niðurskurði verður fer fólk að leita annað og bjarga sér. Fólk þarf að eiga í sig og á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert