Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, verður tilnefndur varasaksóknari í máli Geirs H. Haarde nk. þriðjudag en Sigríður J. Friðjónsdóttir verður tilnefnd aðalsaksóknari.
Helgi Magnús gerir ráð fyrir að taka virkan þátt í málinu þó hann verði einungis kosinn til vara. „Það á nú eftir að kjósa og það á eftir að útfæra þetta. Ég geri samt ráð fyrir því að ég verði meira en til vara, að ég komi að þessu með henni og starfi að þessu með henni. Það er þó með þeim fyrirvara að þetta verði allt frágengið,“ segir Helgi Magnús sem kveðst ekki vera byrjaður að skoða málið.