Skoðar meðferð kynferðisbrota

Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra segir ábyrgð á ofbeldi hvíla á herðum …
Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra segir ábyrgð á ofbeldi hvíla á herðum þess sem því beitir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra ætlar að skoða meðferð kynferðisbrotamála innan lögreglunnar og hjá ákæruvaldi og dómstólum.  Fyrsta skrefið verður að kalla til fulltrúa þessara aðila sem og Stígamóta, Neyðarmóttöku vegna nauðgana og fleiri. 

Tilefnið er m.a. afar umdeild ummæli Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara í DV í síðustu viku um einstök kynferðisbrotamál og brotaflokkinn almennt. Í tveimur ítarlegum viðtölum lýsti Valtýr m.a. skoðun sinni á ábyrgð þolenda kynferðisofbeldis, hegðun þeirra og áfengisdrykkju, sem m.a. Femínistafélag Íslands telur þess eðlis að saksóknarinn sé ekki starfi sínu vaxinn. 

„Ábyrgð á ofbeldi hvílir á herðum þess sem því beitir,“ segir Ögmundur. „Það þarf allt samfélagið að viðurkenna, þar með talið réttarvörslukerfið.“

Hann hefur þegar átt fund með ríkissaksóknaranum þar sem honum var gerð grein fyrir þeim fjölda athugasemda sem bárust ráðuneytinu vegna ummælanna í DV.  „Á þeim fundi urðum við ásáttir um að dómsmála- og mannréttindaráðuneytið sendi honum bréf og óskaði eftir greinargerð hans með skýringum.“

Meðal annars spyr ráðuneytið hvort umræða með þátttöku saksóknara um einstaka mál sem til embættisins rata þjóni þeim mikilvægu verndarhagsmunum sem þarna eru. „Eins spyrjum við hvort umfjöllun ríkissaksóknara af þessu tagi sé til þess fallin að efla traust brotaþola á réttarvörslukerfinu. Það traust er mér mjög hugleikið,“ segir Ögmundur.

Getur ekki vikið ríkissaksóknara úr starfi

Spurður um hvort til frekari aðgerða verði gripið, s.s. áminningar eða brottvikningar, segir Ögmundur  að embætti ríkissaksóknara hafi nokkra sérstöðu og staða hans sjálfs sé áþekk stöðu Hæstaréttardómara. Ríkissaksóknari sé skipaður ótímabundið og hann fari með ákæruvaldið, sem lögum samkvæmt er sjálfstætt. „Sem ráðherra virði ég það,“ segir Ögmundur. „Þessi aðskilnaður er mikilvægur því annars byðum við hættunni heim á að pólitískur ráðherra skipti sér af einstaka sakamálum eða þá að hann gæti skipt út ríkissaksóknara eða jafnvel dómurum eftir eigin hentisemi. Mikilvægt er að taka mið af þessu.

Ég tel hins vegar líka áríðandi að við í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, ekki síst með vísan til þess síðarnefnda, skoðum í samvinnu við allt réttarvörslukerfið og fleiri sem að þessum málum koma hvort við getum á einhvern hátt brugðist við þeirri staðreynd að þolendur kynferðisbrota virðast veigra sér við að leita réttar síns. Ábyrgð á ofbeldi hvílir á herðum þess sem því beitir. Það þarf allt samfélagið að viðurkenna, þar með talið réttarvörslukerfið.“

En telur dómsmálaráðherra málið þannig vaxið að ríkissaksóknara beri að víkja vegna ummæla sinna?

„Ríkissaksóknari metur sjálfur hæfi sitt og vanhæfi,” segir Ögmundur. „Ég tel að ég og ríkissaksóknari höfum þegar átt gott samtal og ég bind vonir við að sú vinna sem við höfum ákveðið að hefja á vettvangi ráðuneytisins verði árangursrík.“ 

Pottur er brotinn 

Ögmundur segir að miðað við þær tölfræðilegu upplýsingar sem fyrir liggi  um fjölda þolenda kynferðisofbeldis sem aldrei leita til réttarkerfisins þá sé ljóst að pottur sé brotinn. „Sé ástæðanna að leita í skorti á trausti gagnvart kerfinu þá þurfum við að bæta úr því. Þess vegna vil ég kalla til lögreglu, ákæruvald, dómstóla, Stígamót, Neyðarmóttöku vegna nauðgana og fleiri  til að ræða saman og greina hvar megi úr bæta.  Ég hef trú á því að allt það fólk sem innan kerfisins starfar vilji gera sitt besta til að taka kynferðisbrotamál, hvort sem þau snúa að börnum eða fullorðnum, föstum tökum. Ég bind vonir við að með samráði megi koma upp með hugmyndir um nauðsynlegar úrbætur.“

Ögmundur segir eina hugmyndina þá að rannsaka meðferð kynferðisbrotamála frá því að þau rata inn á borð lögreglu eða t.d. Neyðarmóttöku vegna nauðgana og þar til dæmt er eða viðkomandi mál fellt niður einhvers staðar í ferlinu.

„Tölfræðilegar upplýsingar liggja þegar fyrir og ítarlegar kannanir hafa verið gerðar erlendis, til dæmis nýlega í Svíþjóð. Þetta er ein af hugmyndunum sem við tökum með okkur inn í vinnuna,” segir Ögmundur.
Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari sagði m.a. í DV um nauðganir: „Er …
Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari sagði m.a. í DV um nauðganir: „Er mælikvarðinn endilega sá að hún sé ekki virk í rúminu með honum, taki ekki þátt?“ mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert