Níu þingmenn Samfylkingarinnar vilja að ríkisstjórninni verði falið að hefja undirbúning að þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunar.
Ólína Þorvarðardóttir er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Gert er ráð fyrir því að þar verði bornar upp grundvallarspurningar, meðal annars um það hvort taka eigi upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um eignarhald auðlindarinnar og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar.
Í greinargerð er vísað til stefnu ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og skoðanakannana sem sýni ríkan vilja meðal þjóðarinnar um að þær nái fram að ganga.
Flutningsmenn tillögunnar telja að ekki verði undan því vikist að efna fyrirheit stjórnarflokkanna um breytingar á fiskveiðistjórninni. „Niðurstaða starfshóps sjávarútvegsráðherra og málflutningur forsvarsmanna Landssambands íslenskra útvegsmanna undanfarið bendir hins vegar til þess að breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu muni vart nást fram í fullu samkomulagi við alla hagsmunaaðila. Flutningsmenn telja að full ástæða sé til þess að þjóðin fái að tjá hug sinn um þetta mikilvæga mál,“ segir í greinargerð.