Leggst þunglega í okkur

Landspítalinn
Landspítalinn mbl.is/Ómar

„Samkvæmt þessu frumvarpi þurfum við að skera niður um hálfan milljarð til viðbótar. Það leggst þunglega í okkur, en einhvern veginn verðum við að gera það,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítala Háskólasjúkrahúss.

Landspítalinn hefur á undanförnum tveimur árum þurft að skera niður um 18%, um 6-7 milljarða. Niðurskurðurinn nú bætist við það.

„Við höfum náð að gera þetta, höfum fækkað starfsfólki, lækkað laun og breytt ýmsu í starfseminni hjá okkur. Svo eigum við samkvæmt þessu frumvarpi að spara hálfan milljarð til viðbótar. Svo bætist það ofan á að líklegast verður einhver tilflutningur á verkefnum, en það er ekki ljóst hvaða verkefni það verða,“ segir Björn.

Í frumvarpi til fjárlaga næsta árs er gert ráð fyrir miklum niðurskurði fjárframlaga til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Aukin áhersla verður á sjúkraflutninga, þar sem ýmis þjónusta skerðist, og því fyrirséð að Landspítalinn muni taka á sig aukin verkefni, samfara lækkuðum fjárframlögum.

Ekki var haft samráð við forstöðumenn heilbrigðisstofnananna, sem gert er að skera niður, við undirbúning frumvarpsins, þó það muni hafa víðtæk áhrif á byggðarlög umfram eiginlega heilbrigðisþjónustu.

Fengu upplýsingar fyrirfram nú en ekki í fyrra

Björn segist hafa fengið upplýsingar um fyrirhugaðan niðurskurð mánuði áður en frumvarpið var lagt fram.

„Í fyrra, en þá var reyndar annar heilbrigðisráðherra og núna erum við komin með á þann þriðja, veit ég að Landspítalinn fékk ekkert að vita sína tölu, hvað við ættum að spara mikið, fyrr en það var lagt fram á Alþingi.

Núna fengum við það þó að vita það rúmum mánuði fyrr og gátum byrjað að undirbúa okkur. Þannig að það er meira samráð en áður. En ég er auðvitað bara yfirmaður Landspítalans. Í sambandi við það hvernig útfærsla var hjá öðrum stofnunum hafði ég ekki hugmynd um það og vissi ekkert um,“ segir hann.

Hann segist hafa verið spurður að því hvaða áhrif niðurskurðurinn hefði á Landspítalann, og hvort unnt væri að halda uppi óbreyttri þjónustu.

„Annað hefur ekkert verið rætt. Það var ekki rætt í undirbúningnum að við ættum að taka að okkur meiri verkefni. Það hefur hins vegar legið í loftinu, að við myndum fá meiri verkefni. “

Björn Zoega, forstjóri Landspítalans
Björn Zoega, forstjóri Landspítalans
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert