Niðurfærsla eina leiðin

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins Ómar Óskarsson

Ríkisstjórnin ræðir nú hugmyndir um það að fara í almenna niðurfærslu skulda, í því skyni að takast á við skuldavanda heimilanna. Forsætis-, dómsmála- og félagsmálaráðherrar funduðu í dag um þessi mál.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir þessa hugmynd ekki vera nýja af nálinni.

„Þetta er náttúrulega það sem menn hafa verið að ræða upp á síðkastið, sérstaklega eftir mótmælin. Þetta er nákvæmlega það sem við erum búin að vera að tala um í tvö ár, og er stefna sem Hagsmunasamtök heimilanna tóku upp á sama tíma og börðust fyrir. Ekki vegna þess að þau hafi verið að herma eftir okkur, heldur af því að báðir komust að þeirri niðurstöðu að þetta væri eina „lógíska“ leiðin.“

- Áttu þá við flata niðurfærslu?

„Þetta yrði leiðrétting sem gengur út á það að færa lánin nokkurn veginn í þá stöðu sem þaú voru í áður en urðu þeir atburðir í efnahagslífinu sem menn kalla forsendubrest. Þannig að ég er mjög ánægður með það að ríkisstjórnin skuli núna að spá í þetta. En maður á eftir að sjá að alvara fylgi. Þessi viðbrögð koma rétt eftir að þau eru búin að senda ítrekun til AGS að ekki verði farið í slíkt [almenna niðurfærslu], og það séu komnar fram allar þær aðgerðir sem standi til að fara í fyrir heimilin. Þess vegna veltir maður því fyrir sér hvort þetta séu bara einhver "panik" viðbrögð vegna mótmælanna, en vonandi fylgir hugur máli.“

- Heldurðu að verið sé að spila með væntingar fólks?

„Það er áhyggjuefni ef þetta snýst bara um það að komast í gegnum daginn eða vikuna í umræðunni, þá er bara verið að búa til enn ein vonbrigðin.“

Fari ríkisstjórnin þá leið að setja lög sem fælu í sér niðurfærslu skulda er líklegt að hún baki sér með því skaðabótaskyldu, og kostnaður af slíku áætlaður um 200 milljarðar króna.

„Það sem er að mér finnst vera kolröng nálgun í þessu er að það er alltaf verið að tala um kostnaðinn fyrir ríkið, að hann verði 200-220 milljarðar. Það eru ýmsir gallar á þeim útreikningum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að ef ekki yrði farið í skuldaleiðréttingu myndi allt innheimtast upp í topp. Það verður náttúrulega ekki. En hitt er að þetta gengur ekki út að ríkið taki á sig þessar kröfur, heldur að bankarnir láti þær afskriftir, sem urðu við færslu úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju, að hluta til ganga áfram til lántakenda.“

- En yrðu ekki eigendur bankanna, óánægðir með þessar aðgerðir, það er að segja ef til lagasetningar kæmi?

„Úr því sem komið er held ég að það væri best að menn settust niður með stjórnendum bankanna og athuguðu hvort það væri ekki bara grundvöllur fyrir því að menn tækju sig saman um þetta. Ástæðan fyrir því að ég held að þetta sé tilraunarinnar virði er að á endanum kemur betur út fyrir alla að þessi neikvæði spírall í hagkerfinu snúist við og verði jákvæður. Sem sagt að neysla aukist, atvinna aukist, færri fyrirtæki færu á hausinn og bankarnir fengju á endanum meira til baka af öðrum lánum. Ég held að menn geti fundið lausn sem allir sjái sér hag í.“

- Munt þú styðja framgöngu þessarar tillögu ef hún verður lögð fram á þingi?

„Já, ef það er eitthvað í líkingu við þetta sem við höfum verið að berjast fyrir mun ég náttúrulega gera það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert