Óttast fólksfækkun á Sauðárkróki

Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki
Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki mbl.is

„Ungir framsóknarmenn ætla að hittast við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki klukkan 16.00 í dag og ég á von á því að það verði flutt ávörp af því tilefni,“ segir Sigurður Árnason, einn hollvina stofnunarinnar. Sigurður segir einboðið að niðurskurðurinn muni leiða til fólksfækkunar á Sauðárkróki.

„Þetta er gjörningur sem félagið stendur fyrir en svo verður borgarafundur klukkan átta á mánudagskvöld í bóknámshúsi Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Ég á ekki von á öðru en fjölmenni því að það er mikil reiði á staðnum og í héraðinu út af þessu,“ segir Sigurður sem er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í sveitarfélaginu Skagfirði.

Krefjast jafnræðis 

„Við krefjumst þess að jafnræði verði gætts í þessum niðurskurði. Við vitum að það þarf að skera niður en við sættum okkur ekki við að landsbyggðin þurfi að taka á sig mest allan skellinn af því. Þetta mun að óbreyttu leiða til fólksfækkunar hér í sveitarfélaginu.“

Að sögn Sigurðar hefur þingmönnum kjördæmisins verið boðað til fundarins á mánudag en þeir eru Gunnar Bragi Sveinsson og Guðmundur Steingrímsson, Framsóknarflokki, Ásbjörn Óttarsson og Einar Kristinn Guðmundsson, Sjálfstæðisflokki, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og flokkssystir hans Ólína Þorvarðardóttir í Samfylkingunni og Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra og flokkssystkini hans í Vinstri grænum, þau Ásmundur Einar Daðason og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Sigurður skrifaði harðorða grein um niðurskurðinn á vefinn feykir.is en þar birti hann netföng og símanúmer ofangreindra þingmanna.

Loks má nefna að sveitarstjórn Skagafjarðar mótmælir niðurskurðinum.

Sigurður Árnason
Sigurður Árnason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert