Ráðningamálin eru aftur á byrjunarreit

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður mbl.is/Árni Sæberg

Starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu á dögunum, en stjórn sjóðsins komst ekki að niðurstöðu um ráðningu í starfið eftir auglýsingu frá því í vor. Umsóknarfrestur er til 17. október.

„Það var samdóma álit stjórnarinnar að gera þetta svona,“ segir Hákon Hákonarson, stjórnarformaður ÍLS, um nýju auglýsinguna. Hann bætir við að margt hafi breyst í ferlinu síðan staðan var auglýst 30. apríl sem leið. Valnefndin hafi sagt að auglýsa bæri stöðuna aftur og stjórnin hafi farið að tillögu hennar.

Upphaflega sóttu 27 um starf framkvæmdastjóra og voru fjórir umsækjendur kallaðir í viðtal. Þar á meðal Ásta H. Bragadóttir, þáverandi aðstoðarframkvæmdastjóri sjóðsins, en fjórir af fimm stjórnarmönnum vildu ráða hana í starfið. Hún hefur gegnt stöðunni til bráðabirgða frá 1. júlí, en dró umsókn sína um starfið til baka þegar Árni Páll Árnason, þáverandi félagsmálaráðherra, lagði til í lok ágúst að skipuð yrði valnefnd til þess að fara yfir umsóknirnar.

Hákon segir að miðað við allt sem á undan hefur gengið hafi verið ákveðið að auglýsa stöðuna á ný. „Þetta fór úr skorðum miðað við það sem upphaflega var lagt upp með,“ segir hann.

Ásta H. Bragadóttir segist ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hún sæki aftur um starfið. „Við erum á byrjunarreit aftur og auðvitað hugsa ég málið, þetta er spennandi starf,“ segir hún. Ásta bætir við að úr því sem komið var hafi stjórnin ekki getað gert neitt annað en auglýsa starfið á ný. „Þetta var besta næsta skref.“


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert