Ný stjórn Vinstri-grænna í Reykjavík segir stjórnvöld þurfa að ganga "mun harðar fram" við það að rétta almenningi hjálparhönd og að rannsaka þurfi hvers vegna fjármálastofnanir hagnis á meðan heimili fólks séu seld á uppboði.
Þetta kemur fram í ályktun félagsins, en hún er birt hér í heild sinni.
"Ályktun frá stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík
Stjórn VGR lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðu heimilanna í landinu og því óvissuástandi sem enn ríkir, tveimur árum eftir hrun bankakerfisins. Stjórnvöld verða að ganga mun harðar fram við að leiðrétta afleiðingar óstjórnar, auðhyggju og eftirlitsleysis í fjármálakerfinu á undanförnum árum og veita almenningi aðstoð í átökum við fjármálastofnanirnar.
Nauðsynlegt er að grandskoða hvernig fjármálastofnanir eflast og græða á sama tíma og hafin eru uppboð á íslenskum alþýðuheimilum. Tryggja skal að hagnaður fjármálageirans verði nýttur til að bæta ástandið hjá venjulegu fólki á Íslandi og tryggja réttlæti og samfélagslega þjónustu sem nú er ógnað í kjölfar óstjórnarinnar.
Stjórn VGR stendur með íslenskum almenningi í baráttunni við auðstéttirnar. Það er óásættanlegt að hér sé rekin stefna eftir forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem fórnar hagsmunum fjölskyldna og heimila fyrir uppgang fjármálafyrirtækja. Ekki verður við annað unað en að bankar og fjármálastofnanir hafi það að leiðarljósi að bæta fyrir afleiðinar af misgjörðum sínum. Þá verða stofnanir ríkis og sveitarfélaga einnig að gera allt sem mögulegt er til að varðveita jöfnuð og velferð í samfélaginu.
Við krefjumst þess að markviss skref verði tekin til að skapa réttlátt samfélag og að ríkisstjórnin sýni pólitískan vilja til að koma böndum á fjármálakerfið um leið og hún skapar almenningi öryggi og hagsæld, sem ekki er eingöngu metin í peningum. Við krefjumst þess að ríkisstjórnin hafi gott samráð við almenning í landinu og að fram fari lýðræðisleg og upplýst umræða um aðgerðir yfirvalda.
Þingmenn VG geta treyst á stuðning okkar þegar ráðist verður í raunverulegar aðgerðir til bjargar heimilinum og til varnar hagsmunum almennings gegn ágangi fjármálaauðvaldsins," segir í yfirlýsingu félagsins.