Þingmenn vilja leysa skuldavandann

Skuggahverfið í Reykjavík.
Skuggahverfið í Reykjavík. Rax / Ragnar Axelsson

„Við erum ekki búin að hitta alla flokkana. Við munum hitta Framsókn og Samfylkingu nú á mánudaginn,“ segir Friðrik Ó. Friðriksson, formaður stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, um væntingar af viðræðum við fulltrúa flokkanna.

„Við erum búin að hitta fulltrúa Hreyfingarinnar, Vinstri grænna og Sjálfstæðismanna og getum ekki séð annað en að við fáum jákvæðar undirtektir. Fundirnir hafa að mestu gengið út á kynningu á okkar tillögum þar sem við svörum þeim spurningum sem þingmenn eru með.

Þannig að við erum kannski ekki að fá beinan stuðning þingmanna í formi stuðningsyfirlýsingar en við greinum mjög greinilegan vilja til þess að beita sér með samhentum hætti fyrir lausnum í málefnum heimilanna. Stuðningur þingmanna virðist fara ört vaxandi.

Innan flokkanna og þvert á pólitískar línur fjölgar þingmönnum sem greina með mjög skýrum hætti stuðning við það sem við höfum verið að tala fyrir. Svo á eftir að koma í ljós hvernig menn vinna innan sinnan flokka. En þær viðtökur sem við höfum fengið hafa verið mjög góðar.

Við munum líka funda með lífeyrissjóðunum og Íbúðalánasjóði. Það er ekki kominn tímasetning á það en það verður vonandi sem fyrst í næstu viku.“
 

Leggja fram drög að aðgerðaáætlun

- Búist þið við að sjá lausnir lagðar fram af hálfu þingsins?

„Já. Það er það sem við erum að leggja upp með. Við vonumst til að þessi vinna skili sér innan skamms sem rammadrög. Það mun svo taka einhvern tíma að útfæra þau og afgreiða nauðsynlegar lagabreytingar og koma á þeim verkferlum sem þarf til þess að hlutirnir gangi upp svo þeir geti tekið gildi.

Við vonumst til að þessi rammaáætlun liggi fyrir mjög bráðlega,“ segir Friðrik og á við aðgerðaáætlun þverpólitísks samráðshóps allra þingflokka, fulltrúa neytenda og hagsmunaaðila til handa heimilum í skuldavanda.

Kjarni málsins tvíþættur

Friðrik segir málið snúast um tvennt.

„Okkar tillögur snúast um tvennt. Annars vegar um lausnir á lánavanda heimilanna og svo hins vegar nýtt lánakerfi. Við erum aðallega að ræða um lausnarhlutann við ríkisstjórnina en teljum lánahlutann vera beint framhald.

Við þurfum fyrst að komast í gegnum lausnahlutann og svo að afgreiða lánabreytingarnar í framhaldinu. Þannig að fyrsta skrefið eru aðgerðir til lausna í þágu heimilanna.

Þetta er samstarfsverkefni sem byggir á þeim grunni sem við höfum kynnt. Þetta þyrfti að taka gildi sem allra fyrst og það mega ekki margar vikur eða mánuðir líða þangað til nýtt kerfi er komið í gagnið. Við megum hreinlega engan tíma missa.

Vandamálin blasa hvarvetna við. Traust og trú á stjórnmálastéttina hefur farið mjög dvínandi. Traust, trú og viðskiptavilji gagnvart fjármálafyrirtækjunum er svo að segja að hverfa. Þannig að ef við ætlum ekki að missa hér samfélagið út í algjört siðrof og vantrú að þá megum við engan tíma missa.“

Hvaðan koma peningarnir?

- Hvaðan eiga peningarnir að koma?

„Þetta er klassísk spurning. Spurningin er í rauninni öfugmæli. Það var gríðarleg oftaka og hér er verið að skila því sem var oftekið. Verðbætur umfram 4% frá árinu 2001 til haustsins 2008 nema um 700 milljörðum.  Hækkun verðtryggðra skulda heimilanna síðan nema um 245 milljörðum króna,“ segir Friðrik.

Hann bætir því svo við að lokum að samtökin leggi til þríþættar aðgerðir gagnvart aðkomu lífeyrissjóðanna. 

Í fyrsta lagi verði 3,5% ávöxtunarkrafa lækkuð og þar með slegið á þörfina fyrir að skerða lífeyri sem jafnframt slái á vaxtastig í landinu. Þá verði tímasvigrúm til að mæta sjóðsbreytingum aukið til að auka svigrúm sjóðanna til að vega upp sveiflur og í þriðja lagi tekin sú ákvörðun að skerða ekki lífeyri hjá þeim eru komnir á ellilífeyrisaldur. „Þvert á móti komi skerðingin fram hjá þeim sem eiga að baki skemmsta starfsaldurinn.“

„Stærðargráða leiðréttingar sjóðanna nemur um 4% af skráðum eignum þeirra í dag,“ segir Friðrik. 

Friðrik Ó. Friðriksson.
Friðrik Ó. Friðriksson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert