Þingmennirnir Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, og Höskuldur Þórhallsson, Framsóknarflokki, voru í Taívan þegar hin sögulega atkvæðagreiðsla fór fram á Alþingi um ákærur á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum í síðustu viku. Þetta kemur fram í frétt á Eyjunni.
Samkvæmt frétt Eyjunnar var leitað eftir því hjá þingmönnum hvers vegna þeir hafi ekki verið á þingi þegar kosið var.
Höskuldur Þórhallsson hefur ekki enn svarað fyrirspurnum Eyjunnar, en Jón Gunnarsson svaraði Eyjunni góðfúslega með þessum hætti:
„Ég var á ferð í Taiwan í boði þarlendra stjórnvalda. Ferðin var löngu ákveðin og tíminn valinn m.a. með tilliti til þess að þingfundir voru ekki á áætlun á þessum tíma.“
Hér vísar Jón til þess að samkvæmt upphaflegri áætlun Alþingis var stefnt að því að ljúka septemberþingi um miðjan mánuðinn, en umræður um Landsdóm urðu til þess að þær drógust fram undir mánaðamót.