Kvikmyndagerðarmaðurinn Josh Fox, rithöfundarnir Alice Walker og Michael Pollan auk Barböru Kowalcyk sem er talskona matvælaöryggis hlutu viðurkenningar úr LennonOno-friðarsjóðnum í Höfða í dag.
Yoko Ono mætti með fríðu föruneyti niður í Höfða í dag klukkan þrjú til að verðlauna þessa einstaklinga sem allir voru mættir til að njóta heiðursins. Af íslenskum tignargestum voru meðal annars mættir forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr.
Jón Gnarr vitnaði í listaverk Yoko Ono frá 1965 í ræðu sinni. Hann minntist einnig Nutopia sem er/var frjálst ríki án landamæra sem John Lennon og Yoko Ono stofnuðu á sínum tíma.
Kvikmyndagerðarmaðurinn Josh Fox er aðallega þekktur fyrir að hafa skrifað og leikstýrt heimildarmyndinni Gasland árið 2010. Alice Walker er þekktust fyrir bók sína Colour Purple sem meðal annars var þýdd á íslensku á sínum tíma. Hún er einnig þekkt fyrir baráttu sína gegn kynþáttahatri, mannréttindabrotum og mismunun kynjanna. Michael Pollan er þekktastur fyrir metsölubók sína; Food Rules: An Eater´s Manual.