Landsstjórn Landssambands framsóknarkvenna segir tillögu stjórnvalda um niðurskurð til heilbrigðismála lýsa þekkingarleysi ríkisvaldsins á starfsemi heilbrigðisstofnana.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem landsstjórnin sendi frá sér í dag. Þar segir að nái hugmyndirnar fram að ganga munu þær hafa þau áhrif að störf flytjist af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.
Það séu óþolandi vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnar að vinna markvisst að því að fækka fagmenntuðum heilbrigðisstarfsmönnum á landsbyggðinni og skerða með því öryggi þeirra sem þar búa.
Einnig telur landsstjórn Landssambands framsóknarkvenna boðaða skerðingu á framlögum til fæðingarorlofssjóðs vera aðför að jafnrétti og bendir á í því sambandi að fæðingarorlof á Íslandi sé nú þegar styst á Norðurlöndunum.