Brynjar: Hættið að gefa óraunhæfar væntingar

Brynjar Nielsson, formaður Lögmannafélags Íslands
Brynjar Nielsson, formaður Lögmannafélags Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Brynjar Nielsson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir að hætta verði að gefa almenningi óraunhæfar væntingar um almennar niðurfellingar á skuldum á kostnað annarra. Þetta kemur fram í pistli lögmannsins á Pressunni.

Hann segir að við banka- og gjaldmiðlahrunið í október 2008 var óhjákvæmilegt að  víðtækt skuldauppgjör við einstaklinga og fyrirtæki færi fram.  Afleiðingar slíks uppgjörs eru þær að afskrifa þarf skuldir í kjölfar nauðasamninga eða gjaldþrots enda dregur enginn tennur úr tannlausum kjafti.

Að sögn Brynjars hefur ríkissjóður engan áhuga á því að afskrifa ótryggðar skattkröfur eða aðrar opinberar kröfur,  þrátt fyrir að þær myndu augljóslega falla niður við gjaldþrot. 

Hækkun íbúðarlána er sennilega ekki meiri nú en var hjá þorra íbúðareigenda sem tóku lán á misgengisárunum uppúr 1980 þegar verðbólgan rauk upp úr öllu valdi. Má því ætla að flestir, sem eru með eignir sínar í nauðungarsölumeðferð, skuldi meira en bara íbúðarlán, t.d. opinber gjöld og ýmis neyslulán. Uppgjör hjá því fólki þarf að fara fram og afskrifa sem útaf stendur.

Sama á við um fyrirtækin.  Það greiðir enginn meira en hann getur og það sem útaf stendur er því afskrifað, annað hvort með formlegri gjaldþrotameðferð eða niðurfellingu hjá þeim fyrirtækjum sem eru lífvænleg. Það er því mikill misskilningur hjá mörgum fjölmiðlamönnum, stjórnmálamönnum og forsvarsmönnum allra þessara skuldarafélaga að með afskriftum lánastofnana á skuldum fyrirtækja sé verið að velta skuldunum yfir á almenning.

Við þurfum því að einfalda þetta skuldauppgjör og klára það sem allra fyrst. Það þurfa allir að vera með, líka ríkissjóður," skrifar Brynjar.

Sjá pistilinn í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert