Fréttaskýring: Faraldur offitu hefur lagst þungt á þjóðina

Íslendingar eru í 9. sæti yfir of feitar þjóðir
Íslendingar eru í 9. sæti yfir of feitar þjóðir

Fréttin sem barst í liðinni viku um að ný skýrsla OECD sýndi að Íslendingar væru í 9. sæti yfir of feitar þjóðir var ekki góð en hún þurfti hins vegar ekki að koma á óvart. Lýðheilsustöð hefur tekið saman skýrslur um holdafar þjóðarinnar frá árinu 1990 og hefur reglulega varað við þróuninni.

Offita eykur hættu á hvers kyns hjarta- og æðasjúkdómum, álagi á liði líkamans og margt fleira. Í skýrslu OECD kemur einnig fram að kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna offitusjúklings sé um 25% meiri en vegna einstaklings í kjörþyngd.

Nýjasta rannsókn Lýðheilsustöðvar er frá 2009 og byggist á spurningakönnun sem lögð var fyrir árið 2007 og á henni byggir OECD tölfræði sína um Ísland. Í skýrslu OECD eru því ekki nýjar upplýsingar um þyngd þjóðarinnar heldur er það samanburðurinn við aðrar þjóðir sem er nýr – og sláandi. Þó er rétt að benda á að skýrsla OECD byggist á gögnum frá aðildarríkjum stofnunarinnar og því ekki útilokað að mismunandi aðferðir skekki samanburðinn eitthvað.

Skyndibiti, gos og áfengi

Rannsókn Lýðheilsustöðvar frá 2009 sýndi að líkamþyngdarstuðull (BMI) hafði hækkað mjög. Árið 1990 var hlutfall of feitra karla (e. obese) 7,2% en var 18,9% árið 2007. Hjá konum hækkaði hlutfallið úr 9,5 í 21,3% á sama tíma. Hlutfall karla sem eru yfir kjörþyngd var 66,6% árið 2007 og 53,5% hjá konum. Þeir sem eru yfir kjörþyngd eru ýmist of þungir (BMI 25-30) eða of feitir (BMI yfir 30).

Töluverður munur var á þróuninni meðal karla og kvenna. Hlutfall of feitra karla jókst fremur jafnt og þétt allt frá 1990 en þó heldur hraðar eftir 1998. Hlutfall of feitra kvenna hélst hins vegar nokkuð stöðugt fram til ársins 2001 en jókst síðan hröðum skrefum til ársins 2007.

Rannsókn Lýðheilsustöðvar sýndi að Íslendingar hafa fitnað en hún skýrir ekki hvers vegna.

Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar hjá Lýðheilsustöð, segir að ekki sé ein einföld skýring á því að þjóðin þyngist. Ýmsar vísbendingar séu þó til staðar. „Fleiri borða orkumeiri mat og fólk hreyfir sig of lítið,“ segir Hólmfríður. Íslendingar neyti of mikils af fitu- og sykurríkum matvælum. Neysla sykraðra gosdrykkja sé t.d. mikil.

Ekki eru til upplýsingar um magn skyndibita sem renna ofan í landann. Miðað við hina miklu fjölgun skyndibitastaða á undanförnum árum má þó vera fullljóst að neysla orkuríkra skyndibita er hluti skýringarinnar.

Þá má einnig benda á að áfengisneysla hefur aukist frá 1990 en áfengi er afar fitandi.

Hólmfríður bendir einnig á að hreyfingin í daglegu lífi hafi minnkað. Störfum sem krefjast líkamlegrar áreynslu hafi fækkað og samgöngumátinn hafi breyst. „Fólk gengur og hjólar minna en notar bílinn meira, þó þetta virðist vera að breytast aftur.“ Lýðheilsustöð hefur gert ýmislegt til að reyna að draga úr vandanum, bæði meðal fullorðinna og barna. Hólmfríður leggur mikla áherslu á að þetta sé ekki verkefni sem ein stofnun geti leyst heldur þurfi fjölþættar samfélagslegar aðgerðir til. Stjórnvöld, vinnuveitendur, sveitarfélög, skólar og heimili þurfi að vinna markvisst að því að skapa fólki betri tækifæri til að lifa heilsusamlegra lífi.

Börn hætt að þyngjast?

Rannsóknir sem byggjast á mælingum og hæð 9 ára barna á höfuðborgarsvæðinu sýna að hlutfall barna sem er yfir kjörþyngd jókst mikið á árunum 1958 til 1998. Nýjar mælingar sýna á hinn bóginn ekki afgerandi breytingar á síðustu árum á hlutfalli barna sem eru yfir kjörþyngd.

Hólmfríður Þorgeirsdóttir bendir á að mikil vinna hafi farið fram með sveitarfélögum til að stuðla að bættu mataræði og aukinni hreyfingu meðal barna og fjölskyldna. „Svo þarf bara að sjá mælingar næstu árin og sjá hvort þessi þróun heldur áfram.“

Hólmfríður segir að ekki megi einblína á þyngdina, heldur á hollt mataræði og hreyfingu. Fólk getur verið yfir kjörþyngd og í góðu formi og við góða heilsu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert