Það dugar Íslandi að vera með tvo háskóla, þar með talið einn rannsóknarháskóla, að mati Ingjalds Hannibalssonar, prófessors við Háskóla Íslands. Ingjaldur gerði grein fyrir þessari skoðun sinni á fyrirlestri í París fyrir skömmu en hann reiknar með fækkun háskóla hér á landi.
Ingjaldur, sem er prófessor við félagsvísindasvið - viðskiptafræðideild, hélt fyrirlesturinn á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París í síðustu viku, að því er fram kemur á vef University World News í grein um áhrif niðurskurðarins á háskólastarf á Írlandi og Íslandi.
„Ísland tók meiri skell en flest ríki í efnahagskreppunni. Þegar hefur verið dregið úr ríkisframlögum til sjö háskóla á sama tíma og nemendum fer fjölgandi,“ segir Ingjaldur í samtali við University World News.
Fjallað er um menntabóluna á Íslandi og hvernig fjöldi háskóla fór úr tveimur í sjö á tíunda áratug síðustu aldar. Þar af hafi þrír verið einkareknir og þeir samanlagt þjónað aðeins 320.000 manna markaði.
Of margir skólar fyrir litla þjóð
„320.000 manna þjóð þarf líklega ekki meira en tvær menntastofnanir á háskólastigi, þar með talið einn rannsóknarháskóla. Það var ekki skynsamlegt að stofna svo marga háskóla,“ segir Ingjaldur.
Hann bætir því við að hagræðing hafi gert háskólunum kleift að lifa af síðasta ár, tiltekt sem ætti einnig að duga rekstrarárið 2010.
„En þar sem búist er við frekari niðurskurði á árunum 2011 og 2012 verður að grípa til harkalegri aðgerða,“ segir Ingjaldur í samtali við UWN.