DV greinir frá því að Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi 365 miðla, hafi haft bein afskipti af ritstjórn Fréttablaðsins og beitt sér fyrir því að blaðamaður yrði rekinn fyrir að gera grín að sér á netinu. Þetta komi fram í tölvupóstum sem DV hafi undir höndum.
Fram kemur í DV í dag að Jón Kaldal, þáverandi ritstjóri Fréttablaðsins, hafi mótmælt afskiptunum. Hann staðfestir í samtali við mbl.is að hann kannist við umrædd tölvupóstsamskipti.
Segir í blaðinu að þann 11. september 2009 hafi Atli Fannar Bjarkason, þá nýráðinn blaðamaður á Fréttablaðinu, tekið sér fyrir hendur á Facebook að safna peningum fyrir Jón Ásgeir. Þetta hafi verið gert í gríni.
Atli hafi stofnað söfnunarreikning fyrir Jón Ásgeir, sem í viðtali við Viðskiptablaðið hafi tekið fram að fólk þyrfti ekki að hafa áhyggjur af sér.
Jón Ásgeir á að hafa sent Ara Edwald, forstjóra 365, eftirfarandi póst vegna málsins:
„Sæll
Óska eftir því að þessi starfsmaður verði látinn fara nú þegar
hann verður ekki í mínum húsum. Hann getur verið sniðugur og búið
sjálfur til fréttir hvar sem hann vill og hæðst af mér eins og hann
vill, en að ég ætli að borga honum laun fyrir það no way.
Kv
Jón Ásgeir“.
Fram kemur í DV að Ari svari Jóni Ásgeiri og vari hann við því að ákvörðunin kynni að verða notuð gegn honum, þ.e. að verulegar séu á því að sjálfstæðar fréttir yrðu sagðar af því að blaðamaður hefði verið rekinn af Fréttablaðinu.
Einnig er vísað til tölvupóstar sem Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, sendi en þar kveðst hún sammála orðum Ara.
Atli Fannar starfar enn á Fréttablaðinu, en Jóni Kaldal var sagt upp fyrr á þessu ári.