Minnihluti hefur látið fresta lokauppboðum

Minnihluti þeirra, sem horfa fram á lokauppboð á fasteignum í október, hefur nýtt sér heimild til að fresta nauðungarsölum í samræmi við gildandi lög, 43% hafa ekki nýtt sér frestanir og 18% gátu ekki svarað hvort fresturinn hefði verið nýttur.

Þetta kom fram á fundi samráðshóps ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar um skuldavanda heimilanna í morgun. Ásta Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, mætti til fundarins og gerði grein fyrir úthringingum embættisins til þeirra sem að óbreyttu horfa fram á lokauppboð í október. Til stendur að leggja fram frumvarp á Alþingi um heimildir til að fresta lokasölum nauðungaruppboða um allt að þrjá mánuði til viðbótar.

Fram kom í máli Ástu, að af þeim 242 lokauppboðum sem fyrirhuguð eru 149 vegna einstaklinga en 93 vegna eigna í eigu einkahlutafélaga. Fram kom einnig að af þeim 65 einstaklingum sem þegar hefur náðst í hafa aðeins 38% nýtt sér heimild til að fresta nauðungarsölum í samræmi við gildandi lög, 43% hafa ekki nýtt sér frestanir og 18% gátu ekki svarað hvort fresturinn hefði verið nýttur.

Fram kom einnig að aðeins 28% svarenda höfðu nýtt sér úrræði vegna greiðsluerfiðleika, 25% gátu ekki svarað spurningunni og 48% sögðust ekki hafa nýtt sér úrræði vegna greiðsluerfiðleika.

82% svarenda kaus að nýta sér frekari aðstoð umboðsmanns skuldara í kjölfar símtalsins og mun embættið liðsinna viðkomandi einstaklingum í framhaldinu.

Næsti fundur í samráðshópi ríkisstjórnarinnar og fulltrúa stjórnarandstöðunnar var ákveðinn næstkomandi miðvikudag kl. 10.30 í Stjórnarráðshúsinu. Á morgun mun samráðsnefnd ráðherra funda með fjórum þingnefndum, á miðvikudag með fulltrúum fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða, umboðsmanni skuldara, Hagsmunasamtökum heimilanna og talsmanni neytenda og á fimmtudag með aðilum vinnumarkaðar.

Upplýsingar frá umboðsmanni skuldara

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert