„Ofboðsleg skerðing á lífsgæðum“

Sauðárkrókur.
Sauðárkrókur. mbl.is

„Það er allt brjálað. Það er óskapleg ólga hérna. Það rignir hér inn mótmælaályktunum og bréfum frá kvenfélögum og stjórnmálasamtökum. Það eru allir að mótmæla,“ segir Guðný Jóhannesdóttir, ritstjóri tímaritsins Feykir.is, um ólguna í Skagafirði vegna fyrirhugaðs niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu.

Efnt verður til borgarafundar um niðurskurðinn í sal Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra klukkan 20.00 í kvöld.

Mikill hiti er í mönnum og kveðst Guðný aðspurð ekki hafa upplifað svona ólgu á Sauðárkróki áður.

„Nei, ekki svona mikla reiði. Þetta er þriðja árið í röð sem það er gerð atlaga að Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Niðurskurðurinn snýst þó ekki aðeins um stofnunina. Þetta snýst líka um mótvægisstörfin sem við vorum búin að fá við héraðsskjalasafnið og rannsóknar- og vísindastörf. Þannig að þetta geta verið allt í allt 70 til 80 störf.“

- Hversu þungt högg yrði það fyrir bæjarfélagið?

„Það er mjög þungt högg því að Skagafjörður er 5.000 manna samfélag og það að allt að 80 manns missi vinnuna getur verið mjög þungt högg. Ef sjúkrahúsþjónusta hér leggst af er það ofboðsleg skerðing á lífsgæðum.

Sjúklingar þurfa þá að leita lengra. Viðkomandi þarf þá að leggjast á sjúkrahús á Akureyri og maður sendir sjúkling ekki einan. Þú ferð með. Það þýðir fjarvist frá vinnu.“

Guðný bendir á að störf í þekkingariðnaði séu í hættu.

„Þessi rannsóknarstörf sem er verið að byggja upp í mótvægisaðgerðum eru í hættu. Þetta eru rannsóknir sem eru komnar á fremsta hlunn með að skila árangri. Maður hreinlega fylltist vonleysi yfir að lesa fjárlögin.“

Guðný Jóhannesdóttir, ritstjóri Feykir.is.
Guðný Jóhannesdóttir, ritstjóri Feykir.is. Kristján Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka