Marinó G. Njálsson, talsmaður hagsmunasamtaka heimilanna, segir skort á greiðsluvilja og skort á greiðslugetu fara saman. Í gær birtist grein á heimasíðu samtakanna um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en þar kemur m.a. fram að einungis 37% af íslenskum lánum séu í skilum.
„Það fer saman, skortur á greiðsluvilja og skortur á greiðslugetu. Við sjáum þetta þannig að margir aðilar, hvort heldur einstaklingar eða fyrirtæki, sjá ekki tilganginn í því að borgar af því sem þau ráða við á meðan þau vita ekki hvað verður gert við það sem þau ráða ekki við,“ segir Marinó sem kveður fólk ekki alltaf sjá tilgang í að greiða af lánum sínum þó það ráði við þau.
„Þetta er svona þessi fræga setning Bjarna Ármannssonar að fólk lítur bara á þetta sem óábyrga meðhöndlun fjármála sinna að greiða af lánum sem þau vita ekki hvort hafi nokkurn tilgang að greiða. Ef ég borga af húsnæðisláni mínu upp að 45% og sleppi því sem er umfram, þá er mjög líklegt að þeir sem eru á aftari veðréttnum krefjist uppboðs. Væri ég þá ekki að henda peningunum á glæ? Ég er klár á því að það er svona sem fólk hugsar og fyrirtæki líka.“
Marinó segir tölurnar einnig gefa til kynna að bankarnir beri sig betur en eiginfjárstaða þeirra sé í raun.
„Við erum ekki að fullyrða neitt, þetta eru bara vangaveltur. Annað sem mér finnst nú eiginlega verra í þessum tölum er það að þær gætu hreinlega þýtt það þó að bankarnir beri sig vel og segi að allt sé ofsalega gott og flott þá má líta svo á að þessi NPL lán séu lán sem ekki er greitt af og þannig að einhverju leyti glatað fé fyrir bankanna, þó vissulega sé einhver trygging á bak við. Þá er verið að éta mjög hratt á eigið fé bankanna. Það hlýtur því að vera lífsspursmál fyrir bankanna að koma þannig til móts við viðskiptavini sína að þeir vilji borga. Það eru skilaboðin sem við erum að senda,“ segir Marinó sem kveður bankanna vel gera sér grein fyrir stöðu mála.
„Það fer ekkert á milli máli að í öllum þeim samtölum sem við í hagsmunasamtökum heimilanna höfum átt við bankanna að þá átta menn sig alveg á stöðunni. Þetta er bara, eins og oft er, að í staðinn fyrir að menn finni nú góða samninga við lántaka þá eru menn fastir í því að mjólka eins mikið úr fólki og hægt er.“