Tilfærsla undir yfirskini sparnaðar

Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki.
Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki. mbl.is

„Þessi niðurskurður mun þýða að líklega þarf að loka sjúkrasviðinu sem við teljum að sé óafturkræfur gjörningur.  Svona starfssemi  er ekki hafin að nýju  ef hún er flutt eitthvað annað,“ segir Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri Skagafjarðar, um mótmælin gegn fyrirhuguðum niðurskurði á Sauðárkróki í kvöld.

„Það er mikilli samhugur í sveitarfélaginu að mótmæla þessu,“ segir Ásta Björg og vísar til mikillar óánægju með sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar í heilbrigðisþjónustu svæðisins.

Hún kveðst aðspurð binda vonir við að mótmælin í kvöld verði til að skýra andstöðu heimamanna.

„Við vitum ekki hvað gerist en við erum vonast til að koma því á framfæri að þarna sé verið að gera skipulagsbreytingar og nota þörfina fyrir niðurskurð til að koma þeim til framkvæmda, að sparnaðurinn sé því í raun tylliástæða.

Við teljum að það verði sáralítill sparnaður af aðgerðunum. Það er talað um að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eigi 70-75% af allri hagræðingu í heilbrigðisþjónustu að fara fram á landsbyggðinni en það fara aðeins 30% af fjárframlögum ríkisins til heilbrigðisstofnanna úti á landi. Þarna er því verið að gera skipulagsbreytingar. Þetta er ekki gert í samráði við heimamenn.“

Þurfa að fara yfir þrjá fjallvegi

Ásta Björg tekur undir með Guðnýju Jóhannesdóttur, ritstjóra Feykir.is, að niðurskurðinn sé skerðing á lífsgæðum Skagfirðinga.

 „Þetta er skerðing á lífsgæðum að því leyti að við þurfum að fara yfir langan veg til að sækja þessa þjónustu,“ segir Ásta Björg og bendir á að Skagfirðingar þurfi að fara yfir einn fjallveg, Öxnadalsheiðina, til að sækja þjónustu til Akureyrar en yfir tvo fjallvegi, Þverárfjall og Holtavörðuheiði, á leiðinni til Reykjavíkur. Þær leiðir geti verið erfiðar yfirferðar á veturna sérstaklega þar sem  þjóðvegi 1 er ekki haldið opnum með snjómokstri allan sólarhringinn og það kostar líka fjármuni.“

Hafa ekki pláss fyrir sjúklinga

Ásta Björg segir Akureyringa ekki tilbúna undir að taka á móti slíkum fjölda sjúklinga.

„Fyrir utan það erum við að sækja mikla þjónustu til Akureyrar í dag. Það kemur oftar en ekki fyrir að það er ekki pláss fyrir sjúklinga héðan. Þannig að það þarf að gera gríðarlegar breytingar hjá Sjúkrahúsi Akureyrar til þess að þeir geti tekið á móti þeim fjölda sjúklinga sem munu koma frá okkur.  Og ef marka má orð forstjóra Landspítalans í fjölmiðlum eru aðstæður ekki betri þar heldur.

Þetta er ekki sparnaður heldur skipulagsbreytingar, tilfærsla á fjármunum. Þetta mun hafa gríðarlegar afleiðingar því við erum að tala um að þurfa að segja upp 40 stöðugildum. Allt er þetta  menntað fólk og eru afleiddu áhrifin af brotthvarfi þeirra því gríðarleg.

Við viljum meina að með því að segja upp 40 stöðugildum hjá okkur samsvari það því ef fækkað yrði um rúmlega 1.100 stöðugildi í heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ásta Björg.

Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri í Skagafirði.
Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri í Skagafirði. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert