Viðurkennir fjárdrátt

Maðurinn var aðstoðarforstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfía jafnhliða því sem hann var …
Maðurinn var aðstoðarforstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfía jafnhliða því sem hann var starfandi framkvæmdastóri Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi, þaðan sem hann dró sér fé. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Hvítasunnukirkjunnar, Jón Þór Eyjólfsson, hefur viðurkennt að hafa dregið að sér 25 milljónir króna í starfi frá árinu 2004 og til ágústloka 2010. Tildrög málsins eru nýleg athugun en hún leiddi í ljós að verulega fjármuni vantaði í sjóði Hvítasunnuhreyfingarinnar.

Unnið er að kæru til lögreglu og hefur hreyfingin falið Sigurbirni Magnússyni hrl. að fara með málið.

Jón Þór fór fyrir Klettinum, söfnuði í Hafnarfirði, áður en hann gekk til liðs við Fíladelfíu. Fóru um 60 til 70 safnaðarmeðlimir með honum í Fíladelfíukirkjuna en þar voru fyrir um 1.000 manns og alls um 2.000 manns í Hvítasunnukirkjunni á Íslandi. Þá var hann aðstoðarforstöðumaður í Fíladelfíu jafnhliða því sem hann var starfandi framkvæmdastjóri Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi, regnhlífasamtaka hvítasunnusafnaða á Íslandi, þaðan sem hann dró að sér fé.

Málið telst upplýst innan kirkjunnar

Fram kemur í tilkynningu frá Hvítasunnukirkjunni á Íslandi að gagnasöfnun sé nú lokið og telst málið upplýst innan kirkjunnar. Ekkert bendi til þess að upphæðin sé hærri en sú sem nefnd hefur verið.

„Í ljósi þess að verknaðurinn hefur staðið yfir um nokkurra ára skeið má ætla að ársreikningar á umræddu tímabili hafi verið byggðir á misvísandi gögnum gagngert í því skyni að fela fjárdráttinn. Þannig var réttum fjárhagsupplýsingum skipulega haldið frá endurskoðanda sem vann ársreikninga samkvæmt bestu vitund.

Framkvæmdastjóranum hefur þegar verið vikið úr starfi. Þá hefur stjórn hreyfingarinnar falið Sigurbirni Magnússyni hrl. að fara með málið fyrir hönd Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi og kæra málið til lögreglu og setja fram bótakröfu á hendur framkvæmdastjóranum fyrrverandi,“ segir í tilkynningunni en tekið er fram að málið sé áfall fyrir kirkjuna.

Mikið áfall fyrir kirkjuna

„Eins og gefur að skilja er fjárdrátturinn mikið áfall fyrir Hvítasunnukirkjuna, safnaðarmeðlimi og samstarfsmenn framkvæmdastjórans sem naut mikils trausts sem hann misnotaði á þennan hátt.

Stjórn Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi harmar málið og biður safnaðarmeðlimi í öllum hvítasunnukirkjum á Íslandi afsökunar á því að þetta hafi getað gerst. Stjórnin mun nú, í samráði við löggilta endurskoðendur og ráðgjafa, yfirfara alla verkferla sem lúta að bókhaldi og meðferð fjármuna, skipulagi innra starfs og verklagsreglum til þess að tryggja að fremsta megni að viðlíka atburðir endurtaki sig ekki.

Hvítasunnukirkjan á Íslandi er landsamtök sjálfstæðra hvítasunnukirkna sem starfa víðsvegar um landið. Sérhver sjálfstæð hvítasunnukirkja er sjálfráð um framkvæmd safnaðarstarfs síns og ábyrg fyrir fjárhag sínum.

Vegna rannsóknarhagsmuna mun stjórn Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi ekki tjá sig frekar um málið meðan lögreglurannsókn fer fram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert