Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað slitastjórn Glitnis banka af kröfu bandarísks vogunarsjóðs, sem vildi að 5 milljóna punda krafa í bú Glitnis, jafnvirði 890 milljóna króna, yrði tekin á kröfuskrá sem almenn krafa. Dómurinn féllst á þá afstöðu Glitnis að krafan hefði borist of seint.
Venor Capital Master Fund Ltd. var handhafi skuldabréfs Glitnis að fjárhæð 5 milljónir punda. Fram kemur í dómnum, að félagið póstlagði kröfulýsingu með aðstoð hraðflutningafyrirtækisins FedEx hinn 23. nóvember 2009 og taldi að pósturinn myndi berast slitastjórn Glitnis 26. nóvember. Vegna mistaka var póstsendingin send til Írlands og barst ekki í hendur Glitnis fyrr en 30. nóvember.
Slitastjórnin tilkynnti Venor Capital í desember að krafan hefði borist of seint. Því mótmælti bandaríski sjóðurinn og vísaði slitastjórnin málinu til héraðsdóms í febrúar.