Býst ekki við að sátt náist

Viðræður um makrílveiðar hefjast í Lundúnum í dag. Á fundinum sitja fulltrúar Íslands, Noregs, Færeyja og Evrópusambandsins. Þá hafa Rússar áheyrnarfulltrúa. Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir afstöðu ESB ekki gefa til kynna að sátt náist á fundunum.

„Það hefur borið mjög mikið á milli hingað til og það er ljóst að viðsemjendur okkar þurfa að koma að þessu með allt öðru hugarfari en hingað til. Verkefnið er að ná þessu saman. Það þarf þá að vera á þeim forsendum sem við getum sætt okkur við. Það hefur borið mjög mikið á milli og á þeim forsendum segist ég ekki vera neitt bjartsýnn. Það kemur samt allt í ljós,“ segir Friðrik.

Í sendinefnd Íslands eru Tómas H. Heiðar, formaður nefdarinnar, Eyþór Björnsson fiskistofustjóri, Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar og Steinar Ingi Matthíasson, fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins í Brussel.

Friðrik telur að erfitt verði að ná ásættanlegum samningi því mikið beri á milli samningsaðila. „Ef það eiga að nást samningar þurfa allir að skoða sinn hug en við komum ekki hingað til þess að fara heim með ekki neitt eða lítið.“

 Þykja Íslendingar ætla sér stóran hlut

Makríllinn hefur leitað norðar en vanalega í ár. Íslensk skip hafa því veitt meiri makríl að undanförnu en áður. Í vor tilkynntu Íslendingar einhliða að miðað væri við að íslenskum skipum verði heimilað að veiða 130 þúsund tonn af makríl. Tillögur NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) gerðu ráð fyrir að hámarki 570 þúsund tonna makrílafla í N-Atlantshafi og finnst því hinum þjóðunum að Ísland hafi ætlað sér stóran hlut.


Friðrik Arngrímsson
Friðrik Arngrímsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka