Einhugur á Blönduósi

Frá mótmælunum á Blönduósi í dag.
Frá mótmælunum á Blönduósi í dag. mbl.is/Jón Sigurðsson

Að minnsta kosti 300 manns komu saman við Héraðshælið á Blönduósi og héldu fylktu liði í Félagsheimilið til að mótmæla niðurskurði ríkisstjórnarinnar á framlögum til heilbrigðismála í A-Húnavatnssýslu. Mikill einhugur ríkti meðal fundarmanna og var greinilegt á öllum að þeim var brugðið.

Það var samdóma álit fundarmanna að þessi niðurskurður væri algjört rothögg fyrir samfélagið. Fólkið væri svift örygginu og það þýddi bara að grafið væri undan grunnstoðunum.

Ekkert samráð hafi verið haft við heimamenn um þennan niðurskurð og ef hann gengi eftir þýddi það að um 17 manns myndu missa atvinnuna á sjúkrahúsinu og það hefði áhrif út í allt samfélagið og nefndu sumir að þetta þýddi að 70 - 80 manns hyrfu af atvinnumarkaði í héraðinu. Margir tóku til máls á fundinum og lýstu áhyggjum sínum og komu sumir fram með þá frómu ósk að fá að fæðast, lifa og deyja í sinni heimabyggð.

Pálmi Jónson, fyrrverandi ráðherra og reynslubolti í fjárlaganefnd, lýsti því yfir að hann hefði aldrei orðið vitni að annarri eins aðför að að landsbyggðinni: „Mér gjörsamlega blöskrar,“ sagði hann að lokum

Samþykkt var samhljóða svohljóðandi ályktun í lok fundar

„Íbúafundur sem haldinn er á Blönduósi þann 12. október 2010 mótmælir harðlega boðuðum niðurskurði á Heilbrigðisstofnunni á Blönduósi (HSB) og birtist í fjárlagafrumvarpi 2011. HSB hefur á undanförnum árum þurft að sæta miklum niðurskurði og er nú svo komið að vegið er illilega að lögboðinni grunnþjónustu og velferð íbúa A-Húnavatnssýslu. Við þetta verður ekki unað og skorað er á ríkisstjórnina að draga til baka þessa aðför að HSB.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert