„Í dag eru Þingvellir einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og eftir að Hótel Valhöll brann sárvantar þjónustu á svæðinu. Það má segja að þetta hafi verið kveikjan,“ segir Ólafur M. Finnsson um meistaraverkefni sitt „Nature Culture Crash“ sem hann vann ásamt Grími Víkingi Magnússyni við Arkitektaskólann í Árósum.
Þeir félagar hönnuðu nútímahótel á Þingvöllum og vonast til að verkefnið ýti undir umræðuna um framtíð staðarins, segir í umfjöllun um hótelhugmyndina í máli og myndum í Morgunblaðinu í dag.
Ásýnd byggingarinnar er túlkun Ólafs og Gríms á bergmyndunum í Almannagjá, en klæðningin er ómeðhöndlaður viður sem gránar með tímanum og fellur þar af leiðandi inn í litaflóru Þingvalla. Í hönnunarferlinu lögðu þeir sérstaka áherslu á að tengja innra rými byggingarinnar við náttúruna þannig að gestir hefðu ávallt tengingu við umhverfið.Á hótelinu er að finna allt frá eins manns herbergjum upp í forsetasvítur, veitingastað með útsýni yfir Þingvallasvæðið og síðast en ekki síst glæsilegan ráðstefnusal sem hefur tengingu inn í Almannagjá þar sem klettaveggurinn mætir gestum.