Íslensk stjórnvöld eru að skoða hvort þörf sé á því að taka öll þau lán, sem Norðurlöndin hétu á síðasta ári að veita Íslendingum. Þetta hefur AFP fréttastofan eftir ónafngreindum embættismanni í fjármálaráðuneytinu.
Embættismaðurinn segir, að verið sé að skoða mögulega kosti og fjalla um hvort Íslendingar þurfi alla lánsfjárhæðina, sem heitið var.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hét því í nóvember 2008 að veita Íslandi 2,1 milljarðs dala lán, 235 milljarða króna, og á síðasta ári hétu Norðurlöndin því að lána íslendingum 1,78 milljarða evra til viðbótar, jafnvirði 278 milljarða króna. Til þessa hafa Íslendingar fengið nærri 1,4 milljarða dala frá AGS og 300 milljónir dala frá Norðurlöndunum.