Skorað var á heilbrigðisráðherra að endurskoða fyrirhugaðan niðurskurð í heilbrigðismálum á Norður- og Austurlandi á almennum fundi læknaráðs Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í dag. Telja læknar sjúkrahússins að niðurskurðurinn muni skerða gæði heilbrigðisþjónustu á svæðinu.
Þannig mótmælti læknaráð Sjúkrahússins á Akureyri (FSA) niðurskurði á fjárlögum til heilbrigðismála á Norður- og Austurlandi. „Niðurskurðurinn mun skerða aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustu á öllu upptökusvæði FSA,“ sagði í tilkynningu frá ráðinu.
Ráðherra láti yfirfara starfsemina
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra er hvattur til að láta yfirfara starfsemi sjúkrahússins.
„Fundur læknaráðs Sjúkrahússins á Akureyri [...] fer þess á leit við æðsta yfirmann heilbrigðismála í landinu, heilbrigðisráðherra, að hann láti gera úttekt á starfsemi spítalans, bæði stjórnunarlega og rekstrarlega.
Tilgangur með þessari úttekt er að tekin verði stefna sem leiðir spítalann inn í framtíðina af fyrirhyggju.
Ástæðan fyrir þessari beiðni er margþætt og á sér langan aðdraganda. Nú er svo komið að læknar hafa verið að hverfa frá spítalanum og í vaxandi mæli reynst erfitt að manna þær stöður. Læknum spítalans líst illa á þróunina og sjá fyrir sér mikla erfiðleika nú þegar og versnandi ástand í bráð og lengd.
Ef ekkert verður að gert er hætta á að Sjúkrahús Akureyrar, þetta sterka bakbein í heilbrigðisþjónustu landsmanna, koðni niður og standi ekki undir þeim kröfum sem til þess eru gerðar, ekki síst í ljósi þeirra auknu verkefna sem bíða FSA vegna samdráttar á sjúkrastofnunum í nágrannabyggðum."
Skortur á læknum á lyflækningadeild
Lögð er fram áskorun til ráðherrans.
„Forstöðulæknir lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri hefur sagt að lokun deildarinnar geti verið yfirvofandi vegna langvarandi skorts á læknum til starfa. Almennur fundur í læknaráði FSA [...] skorar á heilbrigðis- og félagsmálaráðherra að beita tafarlaust öllum ráðum til að leysa þennan vanda lyflækningadeildarinnar, sem ella mun valda skorti á nauðsynlegri þjónustu við sjúklinga á upptökusvæði sjúkrahússins og stefna þeim í hættu."