Purkunarlausar ofbeldishótanir

„Íslendingar eiga að standa á sínum rétti þrátt fyrir purkunarlausar ofbeldishótanir sunnan úr Brussel," sagði Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðu utan dagskrá um stöðuna í makrílviðræðum.

Viðræður Íslendinga, Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyinga um skiptingu makrílkvóta fyrir næsta ár hófust í Lundúnum í dag. 

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, sagði að aðilar viðræðnanna yrðu að gera sér grein fyrir réttindum hvers annars og ábyrgð.  Það væri skylda þessara ríkja sameiginlega að komast að niðurstöðu sem tryggði réttláta skiptingu aflans en einnig sjálfbærar veiðar úr stofninum.

„Við munum halda fram okkar rétti og skyldum og krefjast þess af hinum aðildarríkjunum að þau geri nákvæmlega eins. Ég heiti því að ég mun fyrir okkar hönd standa á eðlilegum rétti okkar og ábyrgð eins og við höfum gert í samningum um veiðar úr sameiginlegum stofnum," sagði Jón. 

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði að þetta væri sagan af Davíð og Golíat og sú saga endaði jafnan á því að Davíð sigraði.

Össur sagðist telja að það hefði verið óviturlegt af forustumönnum Evrópusambandsins, sem skrifuðu Íslendingum bréf fyrir helgi og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu.

Össur sagði einnig, að makríllinn væri ekki tímabundinn túristi í íslensku efnahagslögsögunni heldur hefði hann útvegað sér íslenskt vegabréf og væri  farinn að hrygna allt í kring um landið. Þá kæmi hann ekki ókeypis heldur taki til sín mikla átu frá öðrum stofnum.

Því væru rökin fullkomlega með því, að Íslendingar fái sanngjarnan hlut úr makrílstofninum. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka