Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi, að ef fara eigi einhverskonar niðurfærsluleið til að taka á skuldavanda heimila verði að nást um það samfélagsleg sátt. „Ég tel að það sé nauðsynlegt að fara í samninga ef fara á slíka leið," sagði Jóhanna.
Hún var að svara fyrirspurn frá Bjarna Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Hann spurði hvort Jóhanna væri tilbúin til að fórna tugum milljarða af almannafé í niðurfærslu af þessu tagi.
Jóhanna spurði á móti hvort þingmenn Sjálfstæðisflokks væru tilbúnir til að taka þátt í slíkri leið. Hún sagði ljóst, að niðurfærsluleið væri mjög kostnaðarsöm og endurskipuleggja þyrfti efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar ef hún yrði farin.