„Súrrealískt fáránlegt“

Margrét Tryggvadóttir alþingismaður.
Margrét Tryggvadóttir alþingismaður. frikki

„Þetta var mjög góður fundur. Það var mjög gott andrúmsloft og mikill samstarfsvilji hjá allavega stórum hluta ríkisstjórnarinnar, ekki alveg fannst mér öllum, og öllum þeim þingmönnum sem mættu á fundinn,“ segir Margrét Tryggvadóttir þingmaður um samráðsfundinn í kvöld.

„En það var ekki kynnt neitt nýtt, og það voru ekki kynntar neinar almennar aðgerðir, en við töluðum saman og komum okkar sjónarmiðum að. Þetta var kannski svolítið fyrirmyndarfundur hvað varðar andrúmsloftið. Ég vildi mjög gjarnan að fundir og vinnubrögð í Alþingi væru almennt svona.“

Sameiginlegur fundur

Forsætisráðuneytið bauð til sameiginlegs fundar samráðsnefndar ráðherra og stjórnarandstöðu um skuldamál og þeirra fjögurra fastanefnda sem helst koma að málinu, þ.e. allsherjar-, efnahags- og skatta-, félags- og tryggingamála-, og viðskiptanefndar. Fór fundurinn fram í Þjóðmenningarhúsinu.

- En kom stjórnarandstaðan með einhverjar tillögur?

„Já já, það komu fram fjölmargar tillögur frá stjórnarandstöðunni og eins stjórnarliðum sem ekki sitja í ráðherrastólum. Það var ýmsu velt upp. Þetta var mjög góður samræðufundur. Fundir í Alþingi eri mjög oft svolítið formlegir og mikið „hírarkí“ á ferð. Þarna sátu allir við sama borð.“

- Ertu bjartsýn á að eitthvað komi út úr þessari vinnu á næstunni?

„Ef ríkisstjórnin ætlar sér að lifa, þá verður eitthvað að koma út úr þessu. Því fólk sættir sig ekki við áframhaldandi sérlausnir sem eru svo sérhæfðar að þær henta nánast ekki neinum.“

- Er ekki heldur seint að fara af stað með svona samráðsfundi núna?

„Auðvitað hefði strax við hrun þurft að setjast niður og fara í svona vinnu. Það er eiginlega súrrealískt fáránlegt að vera að þessu tveimur árum síðar,“ segir Margrét Tryggvadóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert