20% heimila yfirveðsett

Frá fundi ráðherra og þingnefnda í gær.
Frá fundi ráðherra og þingnefnda í gær. mbl.is/Golli

Um 20% heimila á landinu skulda um 43% af veðtryggðum skuldum þar sem veðsetningarhlutfall er hærra en fasteignamat viðkomandi eignar. Skuldir þessa heimila nema samtals um 125 milljörðum króna umfram fasteignamat.

Þetta kom fram á fundi, sem haldinn var í gær með ráðherrum og þingnefndum vegna skuldavanda.  Eru þessar upplýsingar byggðar á skattframtölum fyrir síðasta ár.

Á fundinum kom einnig fram, að heildarskuldir heimila með veði í fasteignum eru 1201 milljarður króna. Þar af eru 682 milljarðar þar sem skuldastaðan er þannig að fasteignaskuldir eru lægri en fasteignamat.

Að sögn forsætisráðuneytisins kynntu ráðherrar ríkisstjórnarinnar og formenn þingnefndanna þá vinnu sem nú fer fram á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis til að hraða og auðvelda skuldaaðlögun einstaklinga og fyrirtækja, bæði nauðsynlegar bráðaaðgerðir til að efla fyrirliggjandi úrræði og hugmyndir um langtímalausnir á skuldavanda heimila.

Í dag kl. 18 mun samráðshópur ráherra og stjórnarandstöðu eiga fund með fulltrúum fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna auk Hagsmunasamtaka heimilanna, talsmanni neytenda og umboðsmanni skuldara.

Tilkynning forsætisráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert