Áfram fjallað um skuldavanda

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, heilsar Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, fyrir …
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, heilsar Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, fyrir fundinn í kvöld. mbl.is/Kristinn

Fulltrúar ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu eru nú að hefja fund með fulltrúum fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna auk Hagsmunasamtaka heimilanna, talsmanni neytenda og umboðsmanni skuldara þar sem fjallað er um skuldavanda og leiðir til að vinna á honum.

Samráðshópur ráðherra og stjórnarandstöðu hefur haldið fundi í vikunni með ýmsum aðilum um málið. Í morgun var haldinn fundur  forsætisráðherra, fjármálaráðherra, dóms- og mannréttindaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra fulltrúar Framsóknarflokks, Hreyfingarinnar og Sjálfstæðisflokks.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu var á fundinum aðallega fjallað um nauðsynlegar aðgerðir til bregðast við bráðavanda þeirra heimila sem verst standa og fyrirhugaðar betrumbætur á fyrirliggjandi úrræðum heimila og fyrirtækja til lausnar á skuldavandanum.

Ráðherrar gerðu grein fyrir lagafrumvörpum sem unnið er að og senn verða tekin fyrir á Alþingi, m.a. til að framlengja heimildir til að fresta nauðungarsölum, heimildir til umboðsmanns skuldara sem veita skuldugum heimilum skjól fyrir uppboðum um leið og þau leita aðstoðar hjá embættinu, úrlausn gengisbundinna lána, aukið skjól fyrir ábyrgðarmenn á lánum í greiðsluaðlögun, lyklafrumvarp, fyrningu skulda við gjaldþrot o.fl.  Ákveðið var að öll stjórnarfrumvörp um lausnir vegna skuldamála færu samtímis til allra flokka á Alþingi í stað þess að fara aðeins til stjórnarflokkanna eins og verið hefur.

Þá ítrekaði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, óskir um víðtækt samstarf við stjórnarandstöðu um lausn skuldavandans og sambærilegt samráð yrði haft um tillögur stjórnarandstöðunnar sem leitt gætu til farsællar lausna. 

Jóhanna sagði við Útvarpið í kvöld, að eftir þessa viku komi í ljós hvort vilji sé til samstarfs allra aðila til að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja. Verði svo, séu stjórnvöld komin hálfa leið með að leysa hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert