Áhyggjur af stöðu velferðarkerfisins

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, kynnir fjárlagafrumvarpið nýlega.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, kynnir fjárlagafrumvarpið nýlega. mbl.is/Árni Sæberg

Miðstjórn ASÍ lýsir áhyggjum af stöðu velferðarkerfisins í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Í samþykkt miðstjórnarinnar segir, að ömurlegt sé að horfa upp á þær afleiðingar sem nýfrjálshyggjan og bankahrunið hafi haft á íslenskt samfélag. Afleiðingarnar séu m.a. þær, að ríkissjóður sé nú rekinn með gríðarlegum halla sem ógni velferðarkerfinu ef ekkert sé að gert.

Í ályktun miðstjórnarinnar er lögð áhersla á að mótuð sé þróttmikil stefna í efnahags- og atvinnumálum sem komi hjólum atvinnulífsins í gang á ný. Mikilvægi aukinnar verðmætasköpunar, sem leggi grunn að auknum tekjum til framtíðar fyrir heimilin, fyrirtækin og ríkissjóð, hafi aldrei verið meiri.

„Á niðurskurðartímum þarf að standa vörð um þá sem búa við lökust kjörin. Hlífa þarf viðkvæmustu þáttum velferðarkerfisins sem kostur er og nýta skattkerfið til tekjujöfnunar. Það er því með öllu óásættanlegt að sækja eigi þungan í sparnaði ríkisins til þeirra sem síst eru aflögufærir. Öryrkjar, eldri borgarar og atvinnulausir geta ekki búið við óbreyttar bætur enn eitt árið eins og lagt er til í fjárlagafrumvarpinu. Þá er ekki hægt að ganga í vasa barnafólks með því að skerða barnabætur og skuldsett heimili þola ekki að vaxtabætur séu skertar. Það er heldur ekki ásættanlegt að ríkisstjórnin skuli svíkja samninga við verkalýðshreyfinguna um hækkun persónuafsláttar sem leiðir til þess að skattbyrði verður 8 milljörðum meiri en ella hefði verið. Sú aukna skattbyrði kemur hlutfalllega harðast niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar," segir í ályktuninni.

Þar segir einnig að boðuð skerðing á fjárveitingum til heilbrigðisþjónustu víða á landsbyggðinni muni hafa veruleg áhrif á mörg byggðalög. „Miðstjórn ASÍ telur að vanda þurfi til verka þegar breytingar eru gerðar á nærþjónustu og að stjórnvöld hafi samráð við heimamenn um framkvæmdina."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert