Leikskólabörn í Reykjavík boðuðu frið í dag og mynduðu meðal annars stórt friðarmerki á Ingólfstorgi eftir friðargöngu, sem farin var frá Skólavörðuholti niður í miðbæinn.
Friðargangan var hluti af viðburðaröð Imagine Reykjavík, sem haldin er í tilefni af því að 70 ár eru liðin frá því John Lennon fæddist.
Samkvæmt upplýsingum frá Höfuðborgarstofu er talið að um 500 börn og leikskólakennarar hafi tekið þátt í friðargöngunni en börnin hafa undanfarna daga verið að mála og teikna kröfuspjöld til að bera í göngunni.