Maður gekk berserksgang á skrifstofu umboðsmanns skuldara í morgun.
Að sögn Svanborgar Sigmarsdóttur, upplýsingafulltrúa umboðsmanns skuldara, átti maðurinn erindi á skrifstofuna og varð skyndilega mjög reiður. „Hann braut skilrúm, velti tölvu af borði og braut rúðu í hurð.“
Að sögn Svanborgar slasaðist enginn, hvorki starfsfólk né maðurinn sem um ræðir.
Að þessu búnu rauk maðurinn út og var lögreglu þegar tilkynnt um atvikið.
„Þetta er einsdæmi og hefur aldrei komið fyrir áður,“ segir Svanborg. Hún segir að starfsfólk hafi verið undirbúið til að takast á við erfið símtöl og viðtöl. „En ég held að það sé mjög erfitt að búa fólk undir svona lagað. En það er viðvarandi verkefni hjá okkur að fólk sé viðbúið erfiðum símtölum og samskiptum.“
Skrifstofa umboðsmanns skuldara verður lokuð það sem eftir er dags. Starfsfólki er afar brugðið eftir þessa atburði, en einnig er afgreiðslan ekki viðskiptavinum boðleg, að sögn Svanborgar.
Ekki liggur fyrir hversu hárri upphæð tjónið nemur.