Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, segir að á samráðsfundi stjórnarandstöðunnar með ráðherrum í morgun hafi verið óskað eftir tillögum frá stjórnarandstöðunni. Það sé nýtt en engin lausn sé í sjónmáli varðandi skuldastöðu heimilanna.
Þetta var svipaður fundur og fyrri samráðsfundir fyrir utan það að nú var stjórnarandstöðunni boðið að koma með sínar tillögur á borðið, segir Gunnar Bragi.
Hann segir að tillögur Framsóknarflokksins hafi lengi legið fyrir, til að mynda um almenna leiðréttingu á lánum og aðrar tillögur sem hafi verið lagðar fram. Má þar nefna tillögur um vexti og verðtryggingu og fleira.
„Við munum væntanlega leggja okkar tillögur inn á þetta borð núna. Þetta er nýjung en það sér ekki fyrir neina lausn eða niðurstöðu," segir Gunnar Bragi.
Síðar í dag mun samráðsnefnd eiga fund með fulltrúum fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða, Umboðsmanni skuldara, Hagsmunasamtökum heimilanna og talsmanni neytenda.
Sá hópur, sem sat fundinn í morgun, mun væntanlega hittast á ný á föstudag en ekki hefur verið endanlega ákveðið hvenær fundurinn verður haldinn.