„Skemmst er frá því að segja að ekkert nýtt kom fram á þessum fundi,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um samráðsfund ráðherra og fjögurra fastanefnda Alþingis, sem fram fór í Þjóðmenningarhúsinu í gærkvöldi.
Samkvæmt fundarboði átti að kynna „verkáætlun ríkisstjórnarinnar um lausnir í skuldamálum“ en ráðherrar hafa látið í það skína síðustu daga að unnið sé að almennum aðgerðum til að taka á þeim. Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir andrúmsloftið á fundinum hafa verið gott, og samstarfsvilja hjá viðstöddum. „En ekkert nýtt var kynnt og hvað þá almennar aðgerðir.“
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tekur í sama streng. „Það virðist greinilega vera þannig að stjórnvöld eru komin mjög skammt á veg með þessa svokölluðu verkáætlun um lausnir í skuldamálum heimilanna.“