Gert hefur verið ráð fyrir því við undirbúning orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum að ríkið tæki þátt í byggingu stórskipahafnar á Húsavík til að þjóna álverinu.
Bæjarstjórinn á Húsavík bendir á að ríkið hafi verið þátttakandi í þessu verkefni frá upphafi, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
„Við gerum ráð fyrir því að ríkið komi að þessum framkvæmdum með sambærilegum hætti og annars staðar,“ segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, sem jafnframt er hafnarstjóri sveitarfélagsins. Hann vísar til jafnræðis og bendir á að ríkið hafi komið að slíkum verkefnum annars staðar.