Fréttaskýring : Meira en helmingur jöklanna kortlagður

Vatnajökull
Vatnajökull mbl.is/Rax

Á síðustu árum hefur yfirborð meira en helmings íslenskra jökla verið kortlagt með góðri upplausn með nákvæmri leysimælingu. Flogið er með mælitækin í flugvél á um 200 kílómetra hraða í 2-4 kílómetra hæð yfir jöklunum og skannað með leysigeisla mælisvæði sem er um tveggja km breitt þvert á flugstefnuna. Á þennan hátt fást nákvæm landlíkön af jöklunum og gildir einu hvort yfirborð jökulsins er slétt eða sprungusvæði sem er ófært yfirferðar á jörðu niðri.

Verkefnið hófst fyrir tveimur árum og var þá litið á það sem framlag Íslands til alþjóðlega heimskautaársins 2007-2009. Vonir standa til að verkefninu ljúki á næstu árum. Jöklar þekja um 10% af yfirborði landsins eða um ellefu þúsund ferkílómetra. Nú er búið að mæla vel á sjötta þúsund ferkílómetra eða rúman helming jöklanna. Í sumar voru mældir um fjögur þúsund ferkílómetrar.

„Þessi tækni er eins og galdrar,“ segir Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni. „Á góðum degi er hægt að kortleggja allan Hofsjökul og það er með ólíkindum að hægt sé að gera þessar nákvæmu mælingar úr svona mikilli fjarlægð. Mælingarnar sem búið er að gera sýna að jöklar landsins rýrna nú mjög hratt. Það hafa aðrar mælingar á jöklunum gefið til kynna á síðustu 15 árum, en leysitæknin sem nú er notuð og kortin sem við fáum gefa okkur mikilvægar upplýsingar sem nýtast við margvíslegar rannsóknir.“

Samanburður við eldri kort

Að sögn Tómasar er markmiðið að gera nákvæma mælingu á jöklunum á tiltölulega skömmum tíma til þess að eiga viðmiðunarkort og geta með endurmælingu sýnt hvað jöklarnir breytast hratt. Jafnframt verður greint innan þessa verkefnis hversu hratt jöklarnir hafa rýrnað síðustu 10-20 árin með því að bera niðurstöðurnar saman við eldri kort. Þau er hægt að leiðrétta og laga með ýmsum hætti með samanburði við nýju kortin og þannig fást áreiðanlegri gögn um fyrri lögun jöklanna.

Mælingarnar í sumar gengu mjög vel, en veðurskilyrði þurfa að vera góð, m.a. þarf að vera nánast heiðskírt svo hægt sé að mæla með leysitækinu. Eiríksjökull og Snæfellsjökull voru mældir í tilraunaskyni í upphafi verkefnisins 2008. Síðan er búið að kortleggja Hofsjökul, Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul og stóran hluta af suðaustanverðum Vatnajökli; Öræfajökul, Breiðamerkurjökul og Hornafjarðarjökla. Þá hafa erlendir samstarfsaðilar kortlagt megnið af Langjökli.

Margvísleg hagnýting

Litið er á verkefnið sem framlag til alþjóðlegra rannsókna á jöklabreytingum vegna hnattrænnar hlýnunar. Þá eru nákvæm kort nauðsynleg til þess að meta rennslisleiðir vatns og vatnasvið á jöklum. Einnig eru kortin mikilvæg til rannsókna á framhlaupum jökla og á landlyftingu vegna minnkandi jökulfargs og þau veita upplýsingar um eðli ísflæðis og flæði jökla yfir botnlandslag.

Loks má nefna að á síðustu áratugum hafa ferðalög almennings um jökla aukist mjög og því er mikilvægt að bæði ferðafólk og ekki síst björgunarsveitir hafi aðgang að nákvæmum kortum af jöklum.

Kostnaður nú 40 milljónir

Margir koma að jöklamælingaverkefninu og er heildarkostnaður við það sem af er um 40 milljónir króna. Tómas Jóhannesson segir það ráðast af fjármagni hvenær verkefninu lýkur, en það hafi notið velvilja.

Mælingarnar eru skipulagðar af Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun HÍ, með stuðningi Landmælinga Íslands, Rannsóknasjóðs Rannís, Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar, Umhverfis- og orkurannsóknarsjóðs Orkuveitu Reykjavíkur og Vegagerðarinnar.

Sjálfar mælingarnar eru gerðar af þýska landmælingafyrirtækinu TopScan. Auk þessara aðila hafa erlendir aðilar komið að verkinu og nýlega fékkst vilyrði fyrir stuðningi frá Loftslags- og lofthjúpssjóði Norrænu ráðherranefndarinnar næstu þrjú árin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert