Sjálfstæðismenn og VG segja meirihluta Besta flokks og Samfylkingar í borgarstjórn Reykjavíkur vera að búa til nýja stöðu staðgengils borgarstjóra. Því neitar meirihlutinn og segir skrifstofustjóra borgarstjóra vera að taka á sig auknar skyldur.
Í fréttatilkynningu frá minnihlutanum í borgarstjórn segir að gagnrýnt hafi verið á fundi borgarráðs í dag, að ekki stæði til að auglýsa stöðuna. Í þessu felist brot á samþykktum borgarinnar auk þess sé um að ræða brot á loforði um að auglýsa allar stöður.
Í bókun minnihlutans á fundinum segir að augljóst sé að auglýsa þurfi umrætt starf, enda segi í tillögunni að viðkomandi embættismaður skuli verða æðsti embættismaður í stjórnkerfinu, að undanskildum borgarstjóra.
Hluti af því sé verkstjórnarhlutverk fyrir hönd borgarstjóra, þar sé um að ræða svipuð verkefni og borgarritari hafði með höndum áður fyrr. Skrifstofustjóri verði yfirmaður sviðsstjóra og tengiliður á milli borgarstjóra og sviðsstjóra.
Björn segir að stjórnkerfisnefnd vinni nú að heildarendurskoðun á stjórnkerfi borgarinnar.
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að vissulega sé um að ræða nýtt embætti, þó það beri starfsheiti sem þegar er til. „Það er alveg ljóst að verið er að búa til nýtt starf. Skrifstofustjóri borgarstjóra var ekki ráðinn til þessara verkefna.“
Júlíus segir að verið sé að klippa á samband borgarstjóra við sviðsstjóra í borginni og verið sé að taka yfir verksvið borgarstjóra með nýju stjórnendalagi. „Þetta starf er svo viðamikið að það gjörbreytir skipuriti borgarinnar. Verði breytingin að veruleika hefur skrifstofustjóri vald yfir sviðsstjórum.“
Júlíus segir að það komi sér ekki mikið á óvart að breytingar séu á stjórnkerfi borgarinnar, borgarstjóri hafi frá upphafi lagt áherslu á breytt skipulag.Hann furðar sig á vinnubrögðunum. „ Það var ekki leitað álit eins eða neins. Meginmarkmiðið virðist vera að gefa borgarstjóra frí frá skyldum sínum, kannski til að geta verið á Facebook.“
Tillagan var samþykkt á fundi borgarráðs í dag og mun koma til umræðu og atkvæðagreiðslu á næsta fundi borgarstjórnar sem verður næstkomandi þriðjudag.