Vinna við dýpkun Landeyjahafnar hefur stöðvast eftir að stálrör sem er notað við framkvæmdina brotnaði. Skv. upplýsingum frá Siglingastofnun er dýpkunarskipið Perlan nú í Vestmannaeyjum þar sem gert verður við rörið. Skipið hóf dýpkun í höfninni í gær.
Um er að ræða stálrör sem er 25 metra langt. Það er notað til að dæla sandi úr innsiglingunni.
Upplýsingafulltrúi Siglingastofnunar segir í samtali við mbl.is unnið hafi verið við dýpkun við ýtrustu aðstæður, sem þýðir að ölduhæðin hafi verið um einn metri.
Veður er ágætt en ölduáttin við Landeyjahöfn hefur breyst. Í stað þess að koma úr austri kemur aldan nú úr suðvestri, og eru þær síðarnefndu lengri og öflugri sem leiddi til þess að rörið brotnaði.
Vararör er á staðnum en skipstjórnendur á Perlunnar mátu það svo að aðstæður væru of erfiðar til þess að nýta það.
Ekki er fyrirsjáanlegt hvenær verkinu muni ljúka. Ekki er útlit fyrir að hægt verði að opna Landeyjahöfn að nýju fyrir helgi.