Sigríður Valgeirsdóttir hefur verið ráðinn yfirmaður framleiðslusviðs hjá Roche NimbleGen, sem framleiðir DNA örflögur.
Sigríður hefur starfað hjá fyrirtækinu í átta ár og byggt starfsemina á Íslandi frá grunni en þar starfa um 70 starfsmenn í dag við framleiðslu og þjónusturannsóknir. Roche NimbleGen er einnig með starfsemi í Bandaríkjunum og í Þýskalandi. Heildarfjöldi starfsmanna fyrirtækisins er um 200 manns.
Sigríður er með doktorspróf í sameindalíffræði frá háskólanum í Uppsölum. Áður en hún hóf störf hjá NimbleGen árið 2002 vann Sigríður sem verkefnastjóri hjá Krabbameinsfélagi Íslands og líftæknifyrirtækinu Urði Verðandi Skuld.
Fyrirtækið Roche NimbleGen var upphaflega stofnað sem sprotafyrirtæki frá Wisconsin háskóla í Bandaríkjunum árið 1999 í kringum nýja tækni sem þróuð var til smíði á DNA örflögum.
Árið 2002 opnaði NimbleGen útibú á Íslandi. Starfsemin hér hefur síðan þróast jafnt og þétt. Helstu viðskiptavinir fyrirtækisins eru vísindamenn, rannsóknasetur og háskólar og er nánast öll framleiðsla seld úr landi.
Árið 2007 keypti svissneska fyrirtækið Roche fyrirtækið. Roche er alþjóðleg fyrirtækjasamsteypa og starfa þar um 80 000 manns.