Landssöfnun Skottanna, sem eru samstarfsvettvangur 21 kvennasamtaka á Íslandi, hefst á morgun. Skotturnar selja nælur í formi kynjagleraugna næstu daga og mun ágóðinn renna til þess að breyta Stígamótum í sólarhringsathvarf, en einnig verður opnað athvarf fyrir konur sem eru að brjótast út úr vændi og mansali.
Í fréttatilkynningu frá Skottunum segir að þörfin fyrir slíkt athvarf sé viðurkennd af öllum sem til þekkja. Á morgun, fimmtudag, kl. 12.45 hefst merkjasalan með því að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra og Stefán Eiríksson lögreglustjóri kaupa fyrstu merkin á Stígamótum.
Nælurnar verða seldar í stærri verslunum um allt land á kr. 1000. Á Ísafirði og á Akureyri munu Skottur selja kynjagleraugun til þess að efla starf Sólstafa og Aflsins.