„Hugmyndir um almenna lækkun skulda sem á að greiða með eftirlaunum verkafólks er aðför að lífeyrissparnaði og á það er ekki hægt að fallast,“ segir í ályktun formannafundar Starfsgreinasambandsins sem lauk í dag á Egilstöðum.
Á vefsíðu sambandsins kemur fram að mikil samstaða og samhugur hafi verið á fundinum meðal formanna aðildarfélaga sambandsins, þar sem staða efnahagsmála og undirbúningur kjaraviðræðna var til umfjöllunar. Þar segir að megin markmið komandi kjarasamninga verði að stöðva þá kjara- og kaupmáttarskerðingu sem orðið hefur undanfarin tvö ár og endurreisa kaupmáttinn að nýju.
Þá er einnig haft orð á að heilbrigðisþjónustan þurfi að vera skilvirk og hagkvæm. Tryggja verði öfluga nærþjónustu heilbrigðisstofnana í heimabyggð.
„Hvers konar fljótræði eins og virðist vera raunin í fram komnum niðurskurðartillögum fjárlagafrumvarpsins er ekki til þess fallið að skila árangri,“ segir í ályktun um heilbrigðiskerfið sem samþykkt var einróma á fundinum ásamt ályktun um kjaramál.