Almenn niðurfærsla skulda ólíkleg

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir minni líkur en meiri á að almenn niðurfærsla skulda verði valin þar sem flestir sem koma að málinu eru henni andsnúnir. Slík leið gæti skapað meira vanda en lausnir.

Ábyrgðin við að bæta skuldastöðu heimilanna verði að vera samvinnuverkefni allra þeirra sem koma að fjármálum heimilanna, svo sem banka, ríkisins ofl. 

Undanfarna daga hefur samráðshópur um skuldavanda heimilanna átt fundi með flestum þeim sem koma að fjármálum heimilanna. Síðdegis voru fundir með fulltrúum atvinnulífsins, ASÍ, Samtökum atvinnulífsins, BSRB og samtökum sveitarfélaganna.

Forsætisráðherra undirstrikaði á fundum meö fulltrúum fjármálastofnanna og lífeyrissjóða, auk umboðsmann skuldara, talsmann neytenda og fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna í gær að úrlausn skuldavanda heimila og fyrirtækja sé ein mikilvægasta forsenda þess að hagvöxtur geti farið að vaxa og endurreisn efnahagslífisins kæmist á góðan skrið. Sameiginlegt verkefni fundarmanna væri að finna lausnir til framtíðar. Fundinum væri ekki ætlað að ljúka þeirri umræðu heldur hefja nýja sameiginlega vegferð.

Í erindi Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra kom fram að aldurshópurinn 25-40 ára er langskuldsettasti hópurinn og að fjölmörg heimili eru með verulega yfirveðsettar fasteignir. Einnig sýndi fjármálaráðherrann fram á hvað tillögur um 18% niðurfellingu skulda þýða fyrir ríkissjóð, lífeyrisjóði, Íbúðalánasjóð og bankastofnanir.

Forsvarsmenn lánastofnanna gerðu grein fyrir stöðu mála í viðkomandi stofnunum og hvernig úrræði hefðu nýst skuldurum í vanda. Fram kom að 85-90% lána væru í skilum. Sá hópur sem á í verulegum vanda er afmarkaður að mati fjármálastofnanna, en fer því miður stækkandi. Sértæk skuldaúrræði hefðu ekki nýst sem skyldi og margir skuldara teldu úrræðin flókin í framkvæmd. Töldu forsvarsmenn lánastofnana varhugavert að fara leið almennrar skuldaniðurfellingar. Fremur ætti að laga þau úrræði sem fyrir hendi eru.

Forsvarsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna gerðu grein fyrir sínum hugmyndum um almenna skuldaniðurfellingu um allt að 15½% lækkun höfuðstóls.

Umboðsmaður skuldara rakti stöðu mála í sínu embætti og fyrirhugaðar breytingar til að styrkja embættið. Talsmaður neytenda fór yfir tillögur sínar um  eignarnám verðlána einstaklinga og niðurfærslu þeirra með gerðardómi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert