Sérstakur ríkissaksóknari hefur ákærð Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Fram kom í fréttum Útvarpsins að lögmaður Baldurs hefði staðfest þetta.
Björn L. Bergsson, ríkissaksóknari í málum, sem sérstakur saksóknari hefur til meðferðar, gefur ákæruna út. Þetta er fyrsta ákæran sem Björn gefur út síðan hann var settur í embættið á síðasta ári.
Baldur er grunaður um að hafa gerst sekur um innherjasvik samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir rúmar 190 milljónir króna rétt fyrir hrun bankanna. Þá er talið að hann hafi búið yfir vitneskju um stöðu Landsbankans sem markaðurinn hafði ekki.
Baldur er einnig ákærður
fyrir brot í opinberu starfi samkvæmt 138. grein almennra hegningarlaga
en ríkissaksóknari fer einn með ákæruvald í slíkum málum.