Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að um leið og linnti lagasetningu í þinginu varðandi úrræði til að taka á skuldavanda, byrji menn að tefja mál og drolla og vinni ekki í samræmi við það sem löggjafinn hefur ákveðið.
Sagði Árni Páll að allir yrðu að taka þetta til sín, jafnt opinberir aðilar, lífeyrissjóðir og bankar. „Við verðum að ryðja öllum hindrunum úr vegi hvað það varðar að skuldahreinsun heimila og fyrirtækja gangi hratt fyrir sig. Það á að vera sameiginlegt verkefni okkar allra... að öll fyrirtæki komi saman að endurskipulagningu skulda fyrirtækja og hangi ekki eins og hundur á roði á litlum skuldum og reyni að skapa sér betri stöðu. Að skattayfirvöld komi að málum með sama hætti og lánastofnanir," sagði hann.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að á fundi með fjármálastofnunum í gærkvöldi hefðu menn verið sammála um að úrræði stjórnvalda til að takast á við skuldavanda heimila og fyrirtækja dygðu ekki vegna þess að þau væru flókin og erfitt að vinna með þau. Þessu mótmælti Árni Páll og sagði að vandað hefði verið mjög til þessara úrræða af hálfu ríkisvalds og Alþingis. Samfélagið yrði hins vegar að vinna í takt við það sem ákveðið hefði verið.