„Ef það er búið að banna reykingar og öllum líður vel, af hverju þá ekki að banna áfengi og þá myndi öllum líða líka vel. Þetta snýst um það að fólki á að líða vel í miðborginni,“ segir Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, um bókun flokksins á fundi borgarráðs í gær.
Hann segir þó að bókunin snúist ekki um að banna.
„Þetta snýst um það hvernig miðborgin eigi að vera. Í bókuninni er lýst eftir áfengisstefnu Reykjavíkurborgar en fyrir því hefur félag kráareigenda barist í þrjú ár. Þetta er engin forræðishyggja eða neitt svoleiðis. Þetta er bara til að opna umræðuna um hvað við viljum.“
Í bókun þeirra Einars Arnar og Elsu Hrafnhildar Yeoman á
fundi borgarráðs í gær segir m.a. að um bann við reykingum á
vínveitingastöðum ríki almenn
ánægja. „Liggur því við að næsta rökrétta skref verði að banna áfengi
inni á þessum stöðum, þar sem áfengisneysla hefur margar og alvarlegar
afleiðingar í för með sér," segir í bókuninni.
Einar Örn segir að löggæsla sé mikilvæg og að ástandið í miðbænum hafi batnað frá árinu 2007 þegar lögreglumenn urðu sýnilegir. Í dag sé raunin önnur og að skoða þurfi þau mál.
„Það á að vera frelsi hvers og eins að geta farið í miðborgina án þess að eiga í þeirri hættu að lenda í fulla manninum.“